Heilbrigðisráðuneytið hefur samþykkt undanþágubeiðni HSÍ fyrir félög í næstefstu deild.

Heilbrigðisráðuneytið hefur samþykkt undanþágubeiðni HSÍ um æfingar liða í Grill 66 deildunum, æfingar geta því hafist í dag. Þessi undanþágubeiðni gildir meðan núverandi reglugerð er í gildi.

Mikilvægt er að félögin fari í einu og öllu eftir þeim sóttvarnarleiðbeiningum sem nú eru í gildi þegar þessar æfingar fara fram.

Hægt er að lesa leiðbeiningarnar á heimasíðu HSÍ:
https://www.hsi.is/leidbeiningar-vegna-covid-19/

Helstu atriði sem tiltekin eru í undanþágunni og koma fram í leiðbeiningum eru:

• Tilgreint er í ákvæðinu að hámarksfjöldi í hverju rými sé 25 manns og að sameiginleg búningsaðstaða skuli lokuð. Þá skulu sameiginleg áhöld sótthreinsuð a.m.k. tvisvar á dag, loftræsting skal vera í lagi og loftað reglulega út yfir daginn.

• Sá hópur er saman komi hvert sinn er ávallt sá sami, engin blöndun sé við aðra hópa innan íþróttafélagsins og ótengdir aðilar komi ekki inn á æfingar. Hópur á afreksstigi sé því alltaf sá sami og blandist ekki öðrum við sína íþróttaiðkun.

• Sérstök viðmið eru í leiðbeiningunum að þeir sem komi að þessum hópum skuli fara varlega, forðast mannmarga staði og halda sig almennt til hlés.

• HSÍ hafi sett skýrar sóttvarnarreglur í samvinnu við ÍSÍ sem skilyrði fyrir æfingum og keppni, eins og tilefni hafi verið til hverju sinni. Aðildarfélögum HSÍ sé gert að fylgja þeim reglum til að tryggja sóttvarnir eins og best verður við komið.

Leikmenn, þjálfarar og aðrir sem koma að æfingum liða á þessu stigi þurfa að sýna mikla ábyrgð, því það eru forréttindi að fá að æfa handknattleik við þær aðstæður sem eru í þjóðfélaginu. Sérstaklega mikilvægt er að leikmenn og þjálfarar fylgi þeim leiðbeiningum sem er að finna í reglunum um daglegt líf utan æfinga og keppni.