Handknattleiksbókin: Saga handknattleiksins á Íslandi 1920–2010

Árið 2012 kom út Handknattleiksbókin: Saga handknattleiksins á Íslandi 1920–2010, eftir Steinar J. Lúðvíksson. Þar er rakin saga handknattleiksíþróttarinnar á Íslandi, allt frá því að hún nam hér land upp úr 1920 og út árið 2010. Fjallað er um alla þætti „þjóðaríþróttarinnar“ enda af nógu að taka í litríkri sögu hennar. Fyrirferðarmestu kaflar bókarinnar fjalla um Íslandsmótið í handknattleik og um landsleiki, sem Íslendingar hafa leikið, frá fyrstu tíð.


Í kaflanum um Íslandsmótið er sagt frá mótum karla og kvenna, inni og úti, frá því það var fyrst haldið í Íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu árið 1940. Greint er frá gangi mála í mótinu frá ári til árs og sagt frá eftirminnilegum leikjum og leikmönnum. Einkum er fjallað um efstu deild en einnig sagt frá keppni í öðrum deildum.
Í kaflanum um landsleikina er sagan rakin frá því að Íslendingar léku fyrst landsleik árið 1950. Fjallað er um leikina frá ári til árs, greint frá öllum leikjum karla og kvenna svo og ungmennaliða þegar þeim tókst best til. Staldrað er sérstaklega við mót, svo sem EM, HM og Ólympíuleika og sagt frá eftirminnilegum atburðum einstakra leikja.
Í öðrum þáttum ritsins er það rakið er handknattleikurinn var að nema land á Íslandi og starfi brautryðjendanna; fjallað er um aðstöðuna sem ekki var beysin í byrjun og hvernig hún hefur breyst með árunum; sagt er frá hinu félagslega starfi handknattleikshreyfingarinnar, hlutverki og verkefnum.

Langur kafli er í bókinni um þátttöku íslenskra félagsliða í Evrópubikarkeppninni, „útrás“ íslenskra handknattleiksmanna í atvinnumennsku erlendis; fjallað er um dómara, dómgæslu og þær breytingar sem gerðar hafa verið á reglum íþróttarinnar, þáttur er um hlut handknattleiksmanna í kjöri „Íþróttamanns ársins“; sérþáttur er um heimsmeistarkeppnina á Íslandi árið 1995 og birtar eru ítarlegar tölfræðilegar upplýsingar.

Handknattleiksbókin er í tveimur bindum, alls á níunda hundrað blaðsíður. Fjöldi mynda prýðir þetta mikla verk og höfðu margar þeirra ekki birst áður á opinberum vettvangi. Höfundur Handknattleiksbókarinnar er Steinar J. Lúðvíksson. Helga Magnúsdóttir bar hitann og þungann af myndaöfluninni, en Júlíus Hafstein var formaður ritnefndarinnar og fór þar fyrir Félagi fyrrverandi formanna HSÍ, sem haldið hefur utan um alla þræði verksins. Það er hins vegar Bókaútgáfan Hólar sem gaf Handknattleiksbókina út.