Ársþing HSÍ | Ályktun til stjórnvalda vegna þjóðarhallar

65 . ársþing Handknattleikssambands Íslands fór fram í Origo-höllinni að Hlíðarenda fyrr í dag. 76 manns sátu þingið, þar af 50 þingfulltrúar frá aðildarfélögunum.

Davíð B. Gíslason varaformaður HSÍ lést fyrr á árinu og var hans minnst í upphafi þingsins.

Endurkjörin til næstu tveggja ára í stjórn sambandsins voru þau Arnar Þorkelsson (gjaldkeri), Guðríður Guðjónsdóttir (landsliðsnefnd kvenna) og Kristín Þórðardóttir (mótanefnd). Reynir Stefánsson lætur af störfum sem formaður dómaranefndar og tekur við sem varaformaður sambandsins. Þá kemur Kristján Gaukur Kristjánsson inn sem nýr formaður dómaranefndar. Fyrir í stjórn voru þau Jón Viðar Stefánsson (markaðsnefnd) og Páll Þórólfsson (landsliðsnefnd karla), Inga Lilja Lárusdóttir (fræðslu- og útbreiðslunefnd). Þá voru kjörin í varastjórn þau Alfreð Örn Finnsson, Hrafnhildur Ósk Skúladóttir og Ragnar Lárus Kristjánsson en Ragnar Lárus kemur nýr inn.

Velta HSÍ á árinu var tæpar 319 milljónir kr. en tap sambandsins var 5,8 milljónir. Tap sambandsins skýrist einkum af auknum kostnaði vegna Covid-19 faraldursins.

Fyrir þinginu lá tillaga um að ein deild væri spiluð kvennamegin, sú tillaga var felld.

Í lok þings kom fram tillaga að um áskorun á stjórnvöld vegna þjóðarhallar, hann má sjá hér:

Ályktun

65 ársþing HSÍ haldið í Valsheimilinu 30. apríl 2022 samþykkir að hvetja stjórnvöld, ríki og Reykjavíkurborg til að ljúka samningum nú þegar um byggingu þjóðarhallar.

Eins og kunnugt er þá er ekkert íþróttahús hér á landi sem uppfyllir lágmarksskilyrði til þátttöku í alþjóðlegum keppnum og ekki virðist skorta viljann hjá stjórnvöldum til að uppfylla þessi skilyrði. Dráttur á ákvörðunartöku er því óskiljanlegur. Ársþing HSÍ hvetur stjórnvöld til að hætta störukeppni varðandi kostnaðarskiptingu og ljúka nú þegar samningum um byggingu þjóðarhallar. Með því sýna stjórnvöld í verki raunverulegan stuðning við framgang handknattleiks á Íslandi.

Skýrslu ársþingsins má finna hér.