Valur er bikarmeistari kvenna í handknattleik eftir sigur á Stjörnunni í úrslitaleik í Laugardalshöllinni í dag. Lokatölur eftir mikinn spennuleik voru 24:19 og er þetta þriðji bikarmeistaratitill Valskvenna í röð.

Leikurinn var gríðarlega jafn í fyrri hálfleik. Leikmenn beggja liða voru nokkuð stressaðir í byrjun og liðin skiptust á að hafa forystuna. Einu sinni munaði tveimur mörkum á liðunum en staðan í hálfleik var 10:9 fyrir Stjörnuna.

Stjörnukonur byrjuðu síðari hálfleikinn vel og skoruðu snemma þrjú mörk í röð. Þá vöknuðu leikmenn Vals og svöruðu með þremur mörkum. Eftir það skiptust liðin á að hafa forystuna og spennan mikil.

Vendipunktur leiksins kom hins vegar um miðjan síðari hálfleik. Allt hrökk í baklás hjá Stjörnunni sem skoraði ekki mark í tíu mínútur og Valur gekk á lagið. Valskonur skoruðu fimm mörk í röð og náðu fjögurra marka forskoti. Það reyndist of breitt bil fyrir Stjörnukonur að brúa og þegar yfir lauk munaði fimm mörkum á liðunum. Lokatölur 24:19 og Valskonur fögnuðu að sjálfsögðu innilega í leikslok.

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir var markahæst í liði Vals með 8 mörk en hjá Stjörnunni gerði Hanna Guðrún Stefánsdóttir 6 mörk.

Tekið af mbl.is.