Valur tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleik Coca-Cola bikarkeppni kvenna í handknattleik með sigri gegn Haukum í hörkuspennandi og bráðskemmtilegum undanúrslitaleik, 22-20. Valsstúlkur leika því til úrslita í bikarkeppni HSÍ sjötta árið í röð og eygja von um að fagna titlinum fjórða árið í röð.

Valsstúlkur hófu leikinn í kvöld af fítónskrafti, skoruðu fimm fyrstu mörkin og virtust ætla að sigla í höfn stórum og sannfærandi sigri. Haukastúlkur komust ekki á blað fyrr en eftir níu og hálfrar mínútu leik, en þá smullu þær hafnfirsku reyndar í ágætan gír. Haukar skoruðu fimm mörk í röð, jöfnuðu metin í 5-5, og eftir það var jafnræði með liðunum allt til loka. Valsstúlkur voru lengstum einu og tveimur skrefum á undan, höfðu tveggja marka forystu í hálfleik, 11-9, og stóðust flest áhaup Haukastúlkna ágætlega. Haukar voru aldrei langt undan og hleyptu mikilli spennu í leikinn í lokin, jöfnuðu metin í 20-20 þegar ein og hálf mínúta var eftir og þakið hékk á kofanum af gömlum vana. Síðustu tvö mörk leiksins voru ættuð af Hlíðarenda; Morgan Marie sveif inn úr horninu eins og margsigldur reynslubolti og klessti boltann í hornið fjær áður en hin síunga Sigurlaug Rúnarsdóttir setti punktinn yfir i-ið, 22-20 fyrir Val.

Leikurinn var eins og áður segir bráðskemmtilegur og spennandi og sigur Vals var sanngjarn þegar allt er talið. Markverðirnir, Berglind Íris Hansdóttir hjá Val og Sólveig Ásmundsdóttir hjá Haukum, fóru mikinn, Kristín Guðmundsdóttir virtist hafa baðað sig í æskubrunni í morgunsárið og Haukastúlkunni Mariju Gedrot óx ásmegin eftir því sem á leið.

Mörk Vals: Kristín Guðmundsdóttir 11 (5 víti), Sigurlaug Rúnarsdóttir 4, Bryndís Elín Wöhler 2, Aðalheiður Hreinsdóttir 2, Íris Ásta Pétursdóttir 1, Ágústa Edda Björnsdóttir 1, Morgan Marie Þorkelsdóttir 1.

Varin skot: Berglind Íris Hansdóttir 20.

Mörk Hauka: Marija Gedroit 7 (2 víti), Ragnheiður Sveinsdóttir 3, Ásta Björk Agnarsdóttir 3, Ragnheiður Ragnarsdóttir 3, Karen Helga Díönudóttir 2, Karen Ósk Kolbeinsdóttir 1, Gunnhildur Pétursdóttir 1.

Varin skot: Sólveig Ásmundsdóttir 21.