Útbreiðsla | Handboltasmiðja í Borgarnesi 

Handknattleikssamband Íslands stóð fyrir tveggja daga handboltasmiðju í samstarfi við Grunnskólann í Borgarnesi 21.-22.apríl.  

25 grunnskólakrakkar í 8.-10.bekk skráðu sig í handboltasmiðjuna en engin þeirra hafði áður æft handknattleik. Í smiðjunni voru fyrirlestrar í bland við handknattleiksæfingar. Á fyrsta degi smiðjunnar var farið grunnreglur handboltans ásamt því að kenna rétt grip og kastlag. Æfingunni lauk svo með keppni milli krakkanna þar sem landsliðstreyja var í verðlaun. Á seinni deginum var farið ítarlegra í samspil, varnarstöðu, sóknarleik og fintur. Farið var í spurningakeppni milli iðkenda og sem fyrr var landsliðstreyja frá HSÍ í verðlaun. Handboltasmiðjunni lauk svo með hraðmóti þar sem krakkarnir sýndu listir sýnar.

Það var alveg ótrúlega gaman að sjá metnaðinn og framfarir krakkanna og alls ekki langt í að hægt verði að senda lið til leiks ef Borgnesingar ákveða að leggja handknattleik fyrir sig. Einna helsta vandamálið þessa helgi var “límið” eins og krakkarnir kölluðu harpixið okkar góða. Það mynduðust all nokkrar blöðrur á fingrunum eins og myndirnar sýna.