Stelpurnar í U20-kvenna töpuðu í dag gegn Svíum í hörkuleik, 33-31 í umspili um að leika um 5.-6. sætið á HM í Skopje.

Leikurinn fór af stað í járnum, en Svíarnir voru þó lengi af skrefi á undan stelpunum okkar og leiddu með einu til tveimur mörkum. Þegar líða tók á fyrri hálfleikinn náði Svíþjóð mest fjögurra marka forystu, 15-11 en Ísland svaraði þó til baka af krafti og í hálfleik var staðan 17-15 Svíþjóð í vil.

Í síðari hálfleik komu stelpurnar okkar til leiks af miklum krafti og náðu að snúa leiknum sér, staðan þá 23-25 fyrir Ísland. Þá átti liðið afar slæman leikkafla þegar Svíþjóð náðu að skora fimm mörk í röð og breyttu stöðunni í 28-25 þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka. Líkt og í gær á móti Ungverjalandi neituðu stelpurnar okkar þó að leggja árar í bát og af miklu harðfylgi náðu þær að minnka muninn í eitt mark á lokamínútu leiksins. Svíar fóru í sókn og þrátt fyrir mikla hápressu frá íslenska liðinu tókst ekki að vinna boltann og leikurinn endaði með sænsku marki, lokatölur líkt og áður segir 33-31 fyrir Svíþjóð.

Líkt og tölurnar gefa til kynna var meira um afbragðs sóknarleik en sterkar varnir í dag. Liðin skiptust á mörkum á löngum köflum og margar flottar sóknir litlu dagsins ljós hjá báðum liðum. Hjá Íslandi var það fyrirliðinn Lilja Ágústsdóttir sem dró vagninn líkt og áður í mótinu, en hún skoraði ein 12 mörk úr 12 skotum. Svíþjóð er með afar gott lið í þessum aldursflokki en þær lentu meðal annars í sjötta sæti á HM 18-ára liða fyrir tveimur árum og fimmta sæti á EM 19-ára liða í fyrra. Þó að tapið sé vissulega svekkjandi þá gáfu stelpurnar okkar allt í leikinn í dag. Sumir fætur voru þó orðnir lúnir eftir framlengingu gærkvöldsins og þá var það högg fyrir liðið þegar í ljós kom eftir upphitun að Elísa Elíasdóttir væri ekki leikfær vegna meiðsla sem hún varð fyrir gegn Ungverjalandi. Stelpurnar eiga mikið hrós skilið fyrir sína frammistöðu í síðustu tveimur leikjum og á sunnudaginn munu þær mæta annað hvort Sviss eða Portúgal í leik um sjöunda sætið á HM. Það er mikill hugur í liðinu að ná að gera betur en á síðasta heimsmeistaramóti þegar þær enduðu í áttunda sæti, einmitt hér líka í Skopje.

Markaskor íslenska liðsins: Lilja Ágústsdóttir 12, Elín Klara Þorkelsdóttir 4, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín, Inga Dís Jóhannsdóttir og Tinna Sigurrós Traustadóttir 3, Embla Steindórsdóttir 2, Brynja Katrín Benediktsdóttir, Rakel Oddný Guðmundsdóttir og Sonja Lind Sigsteinsdóttir 1.

Í markinu varði Ethel Gyða Bjarnasen 10 bolta.