Stelpurnar í U20 kvenna unnu í dag stórbrotinn sigur gegn heimastúlkum í Norður-Makedóníu á HM í Skopje. Leikurinn fór þó ekki vel af stað fyrir íslenska liðið því Norður-Makedónía mættu afar beittar til leiks og komust meðal annars í 3-0 og 8-2. Þá náðu stelpurnar okkar heldur betur að snúa vörn í sókn og byrjuðu að saxa á forskotið. Hægt og rólega snérist leikurinn Íslandi í vil og þegar flautað var til hálfleiks var staðan orðin 11-11.

Í síðari hálfleik tóku stelpurnar okkar öll völd á vellinum og léku við hvurn sinn fingur. Þær skoruðu fjögur fyrstu mörkin í síðari hálfleik áður en Norður-Makedónía náði að svara fyrir sig og stigu síðan bensíngjöfina í botn. Þegar upp var staðið var staðan orðin 29-17 Íslandi í vil og stórbrotin sigur á sterku liði Norður-Makedóníu staðreynd. Firnasterkur varnarleikur með markarðaparið Ethel Gyðu og Önnu Karólínu í miklu stuði þar fyrir aftan og hraðaupphlaup voru einkennandi fyrir leik íslenska liðsins í dag, en þar eru stelpurnar okkar svo sannarlega á heimavelli. Norður-Makedónía átti fá svör við leik íslenska liðsins, þar sem allir leikmenn komu við sögu og lögðu sitt á vogarskálarnar.

Sigurinn þýðir að Ísland er komið upp í milliriðil og með sigri gegn Bandaríkjunum á morgun, tekur liðið með sér tvö stig inn í næstu orrustur sem verða gegn afar sterkum liðum Portúgals og Svartfjallalands. Leikurinn gegn Bandaríkjunum hefst klukkan 17.00 að íslenskum tíma og verður sem áður sýndur beint á Youtube-síðu IHF.

Markaskor íslenska liðsins: Elín Klara Þorkelsdóttir 6, Inga Dís Jóhannsdóttir 4, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 3, Elísa Elíasdóttir 3, Lilja Ágústsdóttir 3, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 3, Embla Steindórsdóttir 2, Tinna Sigurrós Traustadóttir 2, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 2 og Katrín Anna Ásmundsdóttir 1.

Í markinu varði Ethel Gyða Bjarnasen 13 skot og Anna Karólína Ingadóttir 5, þar af þrjú víti.

Fögnuðurinn í leikslok var ósvikinn hjá stelpunum okkar sem stóðu sig frábærlega í leik dagsins. Mynd / IHF.