Stelpurnar í U20 kvenna unnu í dag frábæran sigur gegn afar sterku liði Rúmeníu sem enduðu í 3. sæti á heimavelli í fyrra á EM. Í viðureign liðanna á EM í fyrra hafði Rúmenía betur 41-33 en allt annað var upp á teningnum í dag. Stelpurnar okkar mættu grimmar til leiks og mættu rúmenska liðinu af krafti. Jafnræði var með liðunum í gegnum allan fyrri hálfleikinn og hálfleikstölur 17-17.

Í síðari hálfleik náði íslenska liðið að taka frumkvæðið um tíma með öflugum varnarleik en Rúmenarnir svöruðu þó að bragði og þegar sex mínútur voru eftir var staðan orðin 28-26 Rúmeníu í vil. Stelpurnar okkar voru þó fljótar að jafna metin á ný í 28-28, en þá missti liðið Elínu Klöru Þorkelsdóttur útaf með brottvísun og Rúmenía fékk vítakast. Anna Karólína Ingadóttir gerði sér lítið fyrir og varði vítakast Rúmenanna og íslenska liðið náði að lokum að sigla einstaklega sterkum sigri, 30-29. Allir leikmenn Íslands fengur dýrmætar mínútur í leikmenn, fyrir utan Tinnu Sigurrós Traustadóttur sem hvíldi í dag og í gær vegna meiðsla en er á góðum batavegi.

Sigurinn er afar góður, enda Rúmenía með frábæra leikmenn í sínum röðum og ætla sér stóra hluti á Heimsmeistaramótinu sem hefst í næstu viku. Stelpurnar okkar léku á köflum afar sterkan varnarnleik og sóknarleikurinn var agaður og vel útfærður. Ísland er því komið í úrslitaleik á Friendly Cup og verður hann spilaður kl. 19.00 að staðartíma á morgun, en síðar í dag ræðst hver andstæðingurinn verður.

Markaskor íslenska liðsins: Elín Klara Þorkelsdóttir og Lilja Ágústsdóttir 6, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 5, Elísa Elíasdóttir 3, Embla Steindórsdóttir, Hildur Lilja Jónsdóttir og Rakel Oddný Guðmundsdóttir 2, Alfa Brá Oddsdóttir, Brynja Katrín Benediktsdóttir, Inga Dís Jóhannsdóttir og Katrín Anna Ásmundsdóttir 1.

Í markinu varði Ethel Gyða Bjarnasen 6 bolta og Anna Karólína Ingadóttir 2.