Stelpurnar í U19 kvenna töpuðu í dag gegn Portúgal í þriðja og síðasta leik liðsins í riðlakeppni EM U19-ára landsliða í Rúmeníu. Skemmst er frá því að segja að íslenska liðið sá aldrei til sólar í leik dagsins gegn sterku liði Portúgals. Fyrri hálfleikurinn var afar erfiður fyrir stelpurnar okkar sem náðu aldrei almennilegum takti í leiknum. Staðan í hálfleik var 22-10 Portúgal í vil.

Síðari hálfleikurinn þróaðist eins og sá fyrri og Portúgalska liðið hleypti okkar stelpum aldrei nálægt því að minnka muninn. Lokatölur urðu því 44-27 fyrir Portúgal sem tryggðu sér með sigrinum sæti í baráttunni um fyrstu átta sætin á mótinu.

Tapið þýðir að stelpurnar okkar munu spila um sæti 9-16 á EM í Rúmeníu. Í dag eiga stelpurnar frídag til að hlaða batteríin og á morgun hefst næsta barátta með leik gegn Hollandi, liðinu sem sló okkar stelpur út í 8-liða úrslitunum í fyrra á HM U-18 ára liða í Makedóníu.

Markaskor íslenska liðsins: Elín Klara Þorkelsdóttir 6, Lilja Ágústsdóttir 5, Embla Steindórsdóttir 3, Inga Dís Jóhanssdóttir 3, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 3, Hildur Lilja Jónsdóttir 2, Katrín Anna Ásmundsdóttir 2, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 2 og Brynja Katrín Benediktsdóttir 1.

Í markinu varði Elísa Helga Sigurðardóttir 4 og Ethel Gyða Bjarnasen 2 skot.

Lilja Ágústsdóttir var valin maður íslenska liðsins í leiknum. Mynd: Marius Ionescu / EHF
Inga Dís Jóhannsdóttir skorar eitt af þremur mörkum sínum í leiknum. Mynd: Marius Ionescu / EHF