Stelpurnar í U19 kvenna töpuðu í dag gegn Hollandi í fyrri leik liðsins í milliriðlum EM U19-ára landsliða í Rúmeníu. Íslenska liðið kom af miklum krafti inn í leikinn í dag og frammistaðan miklu mun betri en gegn Portúgal á sunnudaginn. Stelpurnar okkar náðu að spila sig í fjölmörg dauðafæri framan af leik, en markvörður hollenska liðsins sá þó jafnharðan við þeim og þær hollensku gengu því á lagið. Staðan í hálfleik var 12-16 Hollandi í vil.

Ísland náði að minnka muninn niður í þrjú mörk um tíma í síðari hálfleik en nær komust stelpurnar okkar þó ekki gegn sterku liði Hollands. Lokatölur urðu því 26-32 fyrir Holland. Ísland er því án stiga í milliriðlinum og á morgun á liðið leik gegn Króatíu kl. 10.00 að íslenskum tíma. Bæði Ísland og Króatía munu síðan leika um 13.-16. sæti mótsins á föstudag og laugardag ásamt Norður-Makedónu og Tékklandi eða Serbíu.

Markaskor íslenska liðsins: Lilja Ágústsdóttir 7, Elín Klara Þorkelsdóttir 5, Katrín Anna Ásmundsdóttir 4, Elísa Elíasdóttir 3, Embla Steindórsdóttir 3, Hildur Lilja Jónsdóttir 2, Alfa Brá Oddsdóttir 1 og Sonja Lind Sigsteinsdóttir 1.

Í markinu varði Ethel Gyða Bjarnasen 8 og Elísa Helga Sigurðardóttir 2.

Katrín Anna Ásmundsdóttir skoraði fjögur mörk og var valin maður íslenska liðsins í leiknum. Mynd: Marius Ionescu / EHF
Elín Klara Þorkelsdóttir skorar eitt af fimm mörkum sínum í leiknum. Mynd: Marius Ionescu / EHF