Stelpurnar í U19 kvenna unnu í gær magnaðan sigur á Serbíu í úrslitaleik um 13.-14. sæti á EM í Rúmeníu. Stelpurnar okkar mættu til leiks af miklum krafti og skoruðu fimm fyrstu mörkin. Serbarnir reyndu hvað þeir gátu að taka yfirhöndina í leiknum og náðu um tíma að minnka muninn í tvö mörk, en nær komust þær serbnesku þó ekki. Staðan í hálfleik var 16-10 Íslandi í vil.

Í síðari hálfleik náðu stelpurnar okkar að halda Serbunum í skefjum og bæta í muninn, en lokatölur urðu 33-22 fyrir Ísland. Frammistaða íslenska liðsins var í einu orði sagt frábær í leiknum. Varnarleikur liðsins var agaður og þær serbnesku áttu í mesta basli með að finna glufur á íslensku vörninni. Sóknarlega gekk boltinn vel manna á milli og stelpurnar okkar voru einstaklega yfirvegaðar í dauðafærunum á móti markvörðum Serbanna.

Sigurinn þýðir það að stelpurnar okkar verða með á HM U20 ára liða sem fer fram í Norður-Makedóníu næsta sumar. Þær eru þar með fyrsta yngra landslið kvenna megin sem kemst inn á A-keppni á stórmóti, þrisvar sinnum í röð. Sannarlega glæsilegur árangur sem ber að fagna.

Markaskor íslenska liðsins: Lilja Ágústsdóttir 9, Katrín Anna Ásmundsdóttir 7, Embla Steindórsdóttir 6, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 4, Elín Klara Þorkelsdóttir 3, Elísa Elíasdóttir 1, Hildur Lilja Jónsdóttir 1, Inga Dís Jóhannsdóttir 1 og Rakel Oddný Guðmundsdóttir 1.

Í markinu varði Ethel Gyða Bjarnasen 7 og Elísa Helga Sigurðardóttir 1.

Lilja Ágústsdóttir átti enn einn stórleikinn fyrir Ísland í dag og skoraði 9 mörk. Hún var valin besti leikmaður íslenska liðsins í leikslok. Mynd: Mihai Nitoiu / EHF
Embla Steindórsdóttir átti frábæran leik fyrir Ísland og skorar hér eitt af sínum 6 mörkum. Mynd: Mihai Nitoiu / EHF