Stelpurnar í U19 kvenna töpuðu í dag gegn Þýskalandi í öðrum leik sínum á EM U19-ára landsliða sem fer fram í Rúmeníu. Það var miklu meiri kraftur í íslenska liðinu í leiknum í dag sem byrjaði leikinn afar vel. Um miðjan fyrri hálfleik náðu stelpurnar okkar að síga fram úr þeim þýsku og náðu mest fjögurra marka forskoti, en hálfleikstölur voru 16-13 Íslandi í vil.

Stelpurnar okkar héldu frumkvæðinu lengi vel í síðari hálfleik, en sterkt lið Þýskalands fór þó smátt og smátt að minnka muninn og þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum var staðan orðin jöfn, 27-27. Lokamínúturnar voru æsispennandi þar sem Þjóðverjarnir leiddu fyrst með tveimur mörkum. Stelpurnar okkar gáfust þó aldrei upp og náðu að minnka muninn í eitt mark og voru svo rúmri sekúndu frá því að jafna leikinn þegar lokaflautið gall við. Lokastaðan 30-31 fyrir Þýskaland og afar grátlegt tap því staðreyndin.

Á morgun er kærkominn frídagur hjá stelpunum okkar en næsti leikur íslenska liðsins er á móti Portúgal á sunnudaginn kl. 14.30 að íslenskum tíma.

Markaskor íslenska liðsins: Elín Klara Þorkelsdóttir 9, Embla Steindórsdóttir 7, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 5, Katrín Anna Ásmundsdóttir 4, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 2, Inga Dís Jóhannsdóttir 1, Lilja Ágústsdóttir 1 og Tinna Sigurrós Traustadóttir 1.

Í markinu varði Ethel Gyða Bjarnasen 9 skot og Elísa Helga Sigurðardóttir 4.

Elín Klara Þorkelsdóttir spilaði afar vel í dag og var valin maður íslenska liðsins í leiknum. Mynd: Marius Ionescu / EHF
Stelpurnar okkar eftir leik dagsins. Mynd: Ísland

Forsíðumynd í frétt: Marius Ionescu / EHF