Stelpurnar í U19 kvenna unnu í dag glæsilegan sigur á Norður-Makedóníu í umspilsleik um 13.-16. sæti á EM í Rúmeníu. Leikurinn fór vel af stað fyrir stelpurnar okkar sem komust í 5-1 strax eftir fimm mínútna leik. Norður-Makedónía voru þó fljótar að svara fyrir sig og náðu á skömmum tíma að snúa leiknum sér í vil, 6-8. Íslenska liðið var fljótt að ná yfirhöndinni á nýjan leik og segja má að stelpurnar hafi aldrei litið til baka eftir það. Staðan í hálfleik var 20-15 Íslandi í vil.

Í síðari hálfleik héldu stelpurnar okkar sama krafti og náðu mest níu marka forystu. Norður-Makedónía lagaði stöðuna aðeins áður en flautað var til leiksloka en lokatölur urðu 35-29 fyrir Ísland.

Mikil barátta einkenndi leik íslenska liðsins í dag og það sást strax frá byrjun að stelpurnar okkar ætluðu sér ekkert nema sigur. Þetta þýðir að á morgun bíður þeirra úrslitaleikur gegn Serbíu um sæti á heimsmeistaramóti U20-ára liða sem fram fer næsta sumar í Norður-Makedóníu. Tapliðið tekur þátt í umspili ásamt þremur öðrum liðum um laust sæti á heimsmeistaramótinu. Leikurinn gegn Serbíu hefst kl. 12.15 að íslenskum tíma og verður auglýstur á miðlum HSÍ á morgun.

Markaskor íslenska liðsins: Lilja Ágústsdóttir 11, Elín Klara Þorkelsdóttir 7, Inga Dís Jóhannsdóttir 6, Embla Steindórsdóttir 4, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 3, Katrín Anna Ásmundsdóttir 2, Alfa Brá Oddsdóttir 1 og Elísa Elíasdóttir 1.

Í markinu varð Ethel Gyða Bjarnasen 9 skot og Elísa Helga Sigurðardóttir 1 skot.

Lilja Ágústsdóttir átti afbragðsleik fyrir Ísland í dag og skoraði 11 mörk. Hún var valin maður íslenska liðsins í leikslok. Mynd: Mihai Nitoiu / EHF
Inga Dís Jóhannsdóttir átti flottan leik í dag, jafnt í vörn sem sókn. Hér skorar hún eitt af sínum 6 mörkum í leiknum. Mynd: Mihai Nitoiu / EHF