Stelpurnar í U19 kvenna unnu í dag frábæran sigur á Króatíu í seinni leik sínum í milliriðli á EM í Rúmeníu. Stelpurnar okkar byrjuðu sannarlega af krafti og tóku snemma stjórnina í leiknum. Staðan í hálfleik var 18-14 Íslandi í vil.

Í síðari hálfleik bættu stelpurnar okkar heldur betur í og sigldu hægt og bítandi fram úr króatíska liðinu. Lokatölur urðu 35-26 fyrir Ísland.

Frammistaða íslenska liðsins var virkilega góð frá upphafi til enda í dag og í raun má segja að allt hafi gengið upp hjá liðinu. Sigurinn var heldur betur kærkominn og stelpurnar fögnuðu honum vel og innilega með stuðningsfólki landsliðsins hér í Rúmeníu eftir leik. Á morgun er kærkominn frídagur þar sem stelpurnar okkar munu æfa og funda í undirbúningi fyrir leik gegn Norður-Makedóníu í umspili um 13.-16. sæti mótsins. Sá leikur fer fram kl. 13.00 föstudaginn 14. júlí. Sigurvegari úr þeim leik mætir annað hvort Serbíu eða Króatíu í úrslitaleik um 13.-14. sæti mótsins. Þar er heldur betur til mikils að vinna, en 13. sætið gefur beinan farmiða á HM U-20 ára liða sumarið 2024.

Markaskor íslenska liðsins: Katrín Anna Ásmundsdóttir 10, Elín Klara Þorkelsdóttir 8, Lilja Ágústsdóttir 5, Alfa Brá Oddsdóttir 3, Embla Steindórsdóttir 3, Elísa Elíasdóttir 2, Inga Dís Jóhannsdóttir 1, Rakel Oddný GUðmundsdóttir 1, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 1 og Valgerður Arnalds 1.

Í markinu varði Ethel Gyða Bjarnasen 12 og Elísa Helga Sigurðardóttir 1.

Ethel Gyða Bjarnasen ver eitt af 12 skotum sínum í leiknum. Hún var valin maður íslenska liðsins í leikslok. Mynd: Marius Ionescu / EHF
Katrín Anna Ásmundsdóttir átti mjög góðan leik í dag og skoraði 10 mörk fyrir Ísland. Mynd: Marius Ionescu / EHF