U19 karla | Sigur gegn Svartfellingum í lokaleiknum

U-19 ára landslið karla lék lokaleik sinn á HM gegn Svartfellingum í dag, 19. sætið var undir og voru strákarnir staðráðnir í að gera sitt besta og enda mótið á sigri.

Strákarnir okkar tóku frumkvæðið strax í byrjun og leiddu megnið af fyrri hálfleik þó svo að Svartfellingar hafi aldrei verið langt undan. Þriggja marka munur var á liðunum í hálfleik, staðan 18-15.

Illa gekk að hrista andstæðinga dagsins af sér í síðari hálfleik, munurinn yfirleitt 1-2 mörk og herslumuninn vantaði uppá til að slíta sig frá. Seinustu 10 mínúturnar voru íslensku strákarnir þó mun sterkari og skiluðu að lokum 6 marka sigri 38-32.

Markaskorarar Íslands:
Elmar Erlingsson 9, Haukur Ingi Hauksson 5, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 4, Össur Haraldsson 4, Daníel Örn Guðmundsson 3, Eiður Rafn Valsson 3, Ívar Bessi Viðarsson 3, Skarphéðinn Ívar Einarsson 3, Kjartan Þór Júlíusson 2, Andri Fannar Elísson 1, Hans Jörgen Ólafsson 1.

Breki Hrafn Árnason varði 4 skot og Ísak Steinsson varði 3 skot.

Það er því ljóst að íslenska liðið endar í 19. sæti á mótinu en tapið í fyrsta leik gegn Tékkum reyndist ansi dýrt þegar upp var staðið. Það voru vonbrigði að lenda í neðri hlutanum en þó bera að hrósa strákunum, það voru margir skínandi góðir leikkaflar í mótinu og í tapleikjunum mátti litlu muna.