U18 kvenna | Uppgjör eftir HM í Skopje

Líkt og áður hefur verið fjallað um enduðu stelpurnar okkar í 18-ára landsliði kvenna í áttunda sæti á HM í Skopje. Sögulegur árangur hjá íslensku kvennalandsliði. Stelpurnar spiluðu mótið af miklum krafti og nú að mótinu loknu er vel við hæfi að skoða ýmsa tölfræði yfir gengi liðsins.

Í markinu skaust Ethel Gyða Bjarnasen fram á sjónarsviðið strax frá upphafi. Hún varði virkilega vel í íslenska markinu heilt yfir á mótinu og varði 36% af þeim skotum sem komu á markið. Það skilaði henni í sjötta sæti yfir hæstu markvörsluprósentuna á mótinu, en ef við tökum þá markmenn sem spiluðu talsvert minna en hún út fyrir sviga, þá er hún jöfn í öðru sæti ásamt Shana Wanda, aðalmarkverði franska landsliðsins.

Ethel Gyða var einnig jöfn hinni frönsku Wanda yfir flesta varða bolta á mótinu, en þær voru jafnar í fimmta sæti á þeim lista. Ef markvarslan úr leikstöðum er skoðuð sjáum við að Ethel Gyða var á meðal bestu markmanna mótsins þegar kemur að markvörslu úr hornum, eða rétt rúmlega 45%. Andstæðingar Íslands áttu í miklum erfiðleikum með að koma boltanum framhjá Ethel Gyðu af vítalínunni, en þar var hún með 40% markvörslu. Að lokum var Ethel Gyða besti markmaður mótsins þegar skot úr dauðafærum eru skoðuð, með rétt tæplega 46% markvörslu. Sannarlega glæsilegur árangur það.

Markaskorun Íslands á mótinu dreifðist töluvert, þar sem allir leikmenn liðsins fyrir utan markverðina tvo, lögðu sitt á vogarskálarnar. Markahæsti leikmaður íslenska liðsins á mótinu var fyrirliðinn Lilja Ágústsdóttir, en hún skoraði alls 56 mörk sem skilar henni í þriðja sætið yfir markahæstu leikmenn mótsins. Þeir tveir leikmenn sem enduðu fyrir ofan Lilju voru þær Minseo Kim, leikmaður heimsmeistaraliðs Suður-Kóreu og Julie Mathiesen Scaglione leikmaður silfurliðs Danmerkur. Mörk Lilju voru af öllum stærðum og gerðum og þar á meðal komu 29 þeirra af vítapunktinum, eða flest vítamörk allra leikmanna mótsins.

Varnarleikur íslenska liðsins var virkilega sterkur í gegnum heimsmeistaramótið og fengu stelpurnar okkar einungis 23 mörk á sig að meðaltali í leik. Aðeins þrjú lið á mótinu fengu á sig færri mörk að meðaltali; Svartfjallaland, Ungverjaland og Frakkland. En varnarleikur liðsins var einnig klókur, því stelpurnar okkar voru það lið sem hlaut fæstar refsingar af liðum mótsins. Liðið fékk alls 16 tveggja mínútna brottvísanir og lék því einum leikmanni færra í aðeins fjórar mínútur að meðaltali í leik. Það hjálpaði svo sannarlega til við að ná þessum glæsilega árangri sem raun ber vitni.

Frekari upplýsingar um tölfræði mótsins má nálgast á heimasíðu IHF.

Ethel Gyða Bjarnasen stóð sig frábærlega í marki íslenska liðsins úti í Skopje. Mynd / IHF.
Lilja Ágústsdóttir fyrirliði var markahæsti leikmaður íslenska liðsins á mótinu með 56 mörk. Mynd / IHF.
Varnarleikur Íslands var frábær á mótinu, en þar stóðu meðal annars þær Alfa Brá Oddsdóttir og Inga Dís Jóhannsdóttir vaktina vel. Mynd / IHF.