U18 kvenna | Stórsigur gegn Alsír

U-18 ára landslið kvenna vann í dag stórsigur á Alsír í lokaleik liðsins í riðlakeppni HM, sem fram fer í Skopje í Norður-Makedóníu. Stelpurnar okkar byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust meðal annars í 13-1, en hálfleikstölur voru 23-8 íslenska liðinu í vil.

Stelpurnar héldu áfram af krafti í síðari hálfleik, þar sem munurinn jókst jafnt og þétt. Liðið lék gríðarlega sterka vörn og refsaði með hraðaupphlaupum trekk í trekk. Þegar flautað var til leiksloka var staðan orðin 42-18 og glæsilegur sigur íslenska liðsins í höfn. Allir leikmenn liðsins spiluðu leikinn með sóma og stóðu sig með mikilli prýði. Lilja Ágústsdóttir, fyrirliði Íslands var valinn besti leikmaður leiksins.

Með sigrinum er ljóst að stelpurnar okkar eru komnar áfram í milliriðil, þar sem þær munu mæta heimastúlkum í Norður-Makedóníu og Íran. Fyrsti leikur milliriðlanna fer fram á morgun, en tímasetning og hvoru liðinu við mætum fyrst, ræðst eftir lokaleiki riðlakeppninnar í kvöld.

Markaskor íslenska liðsins: Lilja Ágústsdóttir 6, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 6, Elín Klara Þorkelsdóttir 5, Hildur Lilja Jónsdóttir 5, Embla Steindórsdóttir 4, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 4, Brynja Katrín Benediktsdóttir 3, Inga Dís Jóhannsdóttir 3, Alfa Brá Oddsdóttir 2, Thelma Melsteð Björgvinsdóttir 2, Tinna Sigurrós Traustadóttir 2.

Í markinu varði Ethel Gyða Bjarnasen 10 skot og Ingunn María Brynjarsdóttir 7 skot.

Stelpurnar okkar léku á als oddi í dag gegn Alsír. Mynd / IHF.
Lilja Ágústsdóttir, fyrirliði Íslands, var valin besti leikmaður leiksins. Mynd / IHF.