U18 kvenna | Sæti í 8-liða úrslitum tryggt eftir sigur á Íran

U-18 ára landslið kvenna tryggði sér í kvöld sæti í 8-liða úrslitum á HM kvenna sem fer fram í Skopje í Norður-Makedóníu. Stelpurnar okkar áttu frábæran leik gegn sterku liði Íran í fyrri leik milliriðilsins. Leikurinn fór vel af stað og það var ljóst frá byrjun að íslenska liðið ætlaði sér ekki að gefa tommu eftir. Munurinn fór upp í 13-5 um miðjan fyrri hálfleikinn en íranska liðið klóraði þó aðeins í bakkann og hálfleikstölur 17-10 Íslandi í vil.

Í síðari hálfleik héldu stelpurnar okkar áfram af krafti og bættu í forystuna. Liðið rúllaði vel og markaskorunin dreifðist á marga leikmenn. Markamunurinn fór mest í 12 mörk en þegar lokaflautið gall var staðan 28-17 Íslandi í vil.

Tinna Sigurrós Traustadóttir var valin besti leikmaður leiksins, en hún stóð sig frábærlega vel í vörninni og skoraði einnig sjö mörk.

Síðar í kvöld endaði leikur Svía og Norður-Makedóna með 20-20 jafntefli. Þar með var það ljóst að stelpurnar okkar eru búnar að tryggja sig áfram í 8-liða úrslit heimsmeistaramótsins, sem er sannarlega sögulegur árangur hjá íslensku kvennalandsliði. Næsti leikur liðsins er gegn Norður-Makedóníu í síðari leik milliriðilsins. Með sigri eða jafntefli enda stelpurnar okkar í efsta sæti milliriðilsins. Mótherji liðsins í 8-liða úrslitunum ræðst eftir leiki annarra liða á föstudag.

Nánari umfjöllun um íslenska landsliðið og heimsmeistaramótið í heild sinni má finna á www.handbolti.is.

Markaskor íslenska liðsins: Lilja Ágústsdóttir 8, Tinna Sigurrós Traustadóttir 7, Elín Klara Þorkelsdóttir 5, Inga Dís Jóhannsdóttir 2, Sara Dröfn Richardsdóttir 2, Thelma Melsteð Björgvinsdóttir 2, Brynja Katrín Benediktsdóttir 1 og Rakel Oddný Guðmundsdóttir 1.

Tinna Sigurrós Traustadóttir átti mjög góðan leik fyrir Ísland og var valin besti leikmaður leiksins. Mynd / IHF.

Rakel Oddný Guðmundsdóttir skýtur að marki Íran í leiknum. Mynd / IHF.