U18 kvenna | Naumt tap gegn Frökkum eftir frábæra frammistöðu

Stelpurnar okkar töpuðu naumlega gegn Frökkum í frábærum handboltaleik fyrr í kvöld á HM í Skopje. Franska liðið byrjaði leikinn af gríðarlegum krafti og komst fljótlega í 1-5. Þá tók íslenska liðið strax leikhlé og á tíu mínútna kafla tókst okkur að snúa leiknum algjörlega við, staðan 11-10 Íslandi í vil. Þá tóku þær frönsku við sér á nýjan leik og náðu þriggja marka forystu áður en flautað var til hálfleiks, 14-17.

Í síðari hálfleik gáfu stelpurnar okkar allt sem þær áttu og héldu í við Frakkana út hálfleikinn. Liðið sýndi á köflum frábæra spilamennsku gegn firnasterku liði Frakklands sem var ávallt skrefinu á undan. Þegar lokaflautið gall var staðan 29-32 Frakklandi í vil, en stelpurnar okkar geta gengið virkilega stoltar frá leiknum og borið höfuðið hátt.

Þetta þýðir það að lokaleikur liðsins á mótinu verður á miðvikudaginn gegn Svíþjóð eða Egyptalandi í leik um 7.-8. sæti. Á morgun fá stelpurnar okkar kærkominn frídag sem verður nýttur til endurheimtar og í undirbúning fyrir leikinn á miðvikudag.

Markaskor íslenska liðsins: Katrín Anna Ásmundsdóttir 7, Elín Klara Þorkelsdóttir 5, Lilja Ágústsdóttir 5, Tinna Sigurrós Traustadóttir 4, Inga Dís Jóhannsdóttir 3, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 2, Brynja Katrín Benediktsdóttir 1, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 1, Thelma Melsteð Björgvinsdóttir 1.

Í markinu vörðu þær Ethel Gyða Bjarnasen 6 skot og Ingunn María Brynjarsdóttir 4 skot.

Katrín Anna Ásmundsdóttir spilaði frábærlega í kvöld og var markahæst með 7 mörk. Mynd / IHF.