U18 kvenna | Jafntefli gegn Svartfjallalandi í hörkuleik

U-18 ára landslið kvenna gerði í dag jafntefli gegn Svartfjallalandi í hörkuleik á HM kvenna í Skopje. Íslenska liðið vann í gær góðan sigur á Svíum á meðan Svartfellingar unnu stóran sigur á Alsír. Segja má að leikurinn hafi verið í járnum frá upphafi en stelpurnar okkar voru þó skrefinu á undan lengi vel í fyrri hálfleik og komust meðal annars í 8-5 og 10-7, áður en Svartfellingar náðu að jafna fyrir lok fyrri hálfleiks þar sem staðan var 11-11.

Í síðari hálfleik var jafnt á öllum tölum þar sem liðin skiptust á að taka forystuna og munurinn varð aldrei meiri en eitt mark. Í stöðunni 18-18 fengu Svartfellingar vítakast þegar örfáar sekúndur voru eftir af leiknum. Ethel Gyða í marki Íslands varði vítakastið og okkar stelpur fengu tækifæri í lokin til að ná sigrinum, en Svartfellingar náðu að verjast vel og jafntefli því niðurstaðan. Frábær úrslit hjá stelpunum okkar sem eru nú komnar í góða stöðu til að komast upp úr riðlinum og í milliriðil. Lokaleikur riðilsins gegn Alsír fer fram á þriðjudaginn, en á morgun er kærkominn frídagur hjá liðinu.

Markaskor íslenska liðsins: Lilja Ágústsdóttir 6, Elín Klara Þorkelsdóttir 4, Tinna Sigurrós Traustadóttir 3, Inga Dís Jóhannsdóttir 2, Elísa Elíasdóttir 1, Embla Steindórsdóttir 1 og Rakel Oddný Guðmundsdóttir 1.

Í markinu átti Ethel Gyða Bjarnasen flottan leik og varði 14 skot.

No description available.
Stelpurnar okkar áttu góðan leik í dag gegn sterku liði Svartfjallalands. Mynd / Ísland.