U-18 ára landslið karla lék lokaleik sinn á EM í Svartfjallalandi gegn Færeyingum í dag þar sem 9. sætið var í húfi.

Íslensku strákarnir hófu leikinn af krafti í 5-1 vörn og leiddu strax frá byrjun, yfirleitt með 2-3 marka mun. Þó svo að færeyska liðið hafi nokkrum sinnum náð að minnka muninn þá svöruðu strákarnir jafnharðan, staðan 15-13 þegar liðin gengu til búningsklefa.

Íslenska liðið hóf síðari hálfleikinn ágætlega og skoraði 2 góð mörk en eftir það gengu Færeyingar á lagið, skoruðu hvert markið á fætur öðru og komust flótlega 4 mörkum yfir, 20-24. Strákarnir reyndu sitt allra besta til að minnka muninn en það var því miður ekki nóg og færeyskur sigur staðreynd, 27-29

Markaskorarar Íslands:
Elmar Erlingsson 7, Andri Fannar Elísson 4, Kjartan Þór Júlíusson 4, Viðar Ernir Reimarsson 3, Hinrik Hugi Heiðarsson 2, Andrés Marel Sigurðsson 1, Birkir Snær Steinsson 1, Atli Steinn Arnarson 1, Össur Haraldsson 1, Sigurður Snær Sigurjónsson 1, Skarphéðinn Ívar Einarsson 1 og Þorvaldur Örn Þorvaldsson 1.

Það er því ljóst að strákarnir okkar enda í 10. sæti á EM og hafa þar með tryggt sér sæti á HM í Króatíu á næsta ári og á EM 20 ára liða eftir tvö ár. Hópurinn heldur nú heim á leið reynslunni ríkari með þá von í hjarta að gera enn betur á næsta ári.