21 árs landslið karla beið í dag lægri hlut fyrir Þjóðverjum í síðasta leik D riðils heimsmeistaramótsins á Spáni, 26-17. Á fyrstu mínútum leiksins leit út fyrir að um jafnan og spennandi leik yrði að ræða en sterk vörn Þjóðverja gerði það þó að verkum að þeir sigu hægt og rólega fram úr og höfðu fyrir lok fyrri hálfleiks náð sex marka forystu, 14-8. Þrátt fyrir að íslensku strákarnir gerðu breytingar á leik sínum í seinni hálfleik var svipað uppi á teningnum og í þeim fyrri. Þjóðverjar bættu í og náðu mest tíu marka forskoti þegar fimm mínútur voru til leiksloka. 

Darri Aronsson var markahæstur Íslendinga með fjögur mörk og Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú. Andri Sigmarsson Scheving átti góðan leik í marki Íslands og varði 15 skot. Liðið leikur næst í 16 liða úrslitum á miðvikudag kl. 19:00 að íslenskum tíma en ekki er enn ljóst hverjir verða andstæðingar Íslands.