U-21 karla | Strákarnir okkar leika til undanúrslita á morgun

Strákarnir okkar léku gegn Portúgal í 8-liða úrslitum HM U-21 árs landslið í gær en Portúgalir enduðu í 2. sæti í EM í fyrra og því ljóst að um hörkuleik yrði að ræða.

Það voru leikmenn Portúgal sem hófu leikinn betur og leiddu framan af leik með 1-2 mörkum. Íslenska liðið náði að jafna 9-9 en það voru Portúgalir sem voru sterkari á lokamínútunum og höfðu tveggja marka forystu 12-14 þegar flautað var til hálfleiks.

Í síðari hálfleik mætti í íslenska liðið ákveðið til leiks og eftir 10 mín leik komust strákarnir okkar yfir í fyrsta skipti, 19-18. Jafnt var á með liðunum næstu mínútur en lokakaflinn var okkar manna sem skyldu sig frá Portúgölum með frábærum lokakafla, lokastaðan 32-28 og sæti í undanúrslitum í höfn. Þorsteinn Leó Gunnarsson átti frábæran leik og skoraði 11 mörk en ekki má gleyma innkomu Brynjars Vignis Sigurjónssonar í markið í síðari hálfleik, en hann varði fjölmarga mikilvæga bolta sérstaklega á lokakaflanum.

Markaskorarar Íslands:
Þorsteinn Leó Gunnarsson 11, Andri Már Rúnarsson 5, Benedikt Gunnar Óskarsson 4, Símon Michael Guðjónsson 4, Arnór Viðarsson 2, Jóhannes Berg Andrason 2, Tryggvi Þórisson 2, Einar Bragi Aðalsteinsson 1 og Stefán Orri Arnalds 1.

Brynjar Vignir Sigurjónsson varði 8 skot og Adam Thorstensen varði 5 skot.

Strákarnir okkar mæta Ungverjum í undanúrslitunum á laugardag kl. 13.30 að íslenskum tíma, leikurinn verður auglýstur nánar á miðlum HSÍ. Við viljum einnig minna sérstaklega á umfjöllun handbolti.is um framgang U-21 árs landsliðsins á HM, en blaðamaður er á staðnum og flytur reglulega fréttir og viðtöl frá liðinu.

QF2 – Iceland vs Portugal, 2023 IHF MEN’S JUNIOR (U21) WORLD CHAMPIONSHIP, Berlin, Germany, 29.06.2023, Mandatory Credit © Sasa Pahic Szabo / kolektiff