21 árs landslið karla vann í dag glæsilegan sigur á Dönum á HM á Spáni. Strákarnir mættu gríðarlega einbeittir leiks og náðu 8-4 forystu snemma í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var 13-9 og þrátt fyrir nokkur áhlaup danska liðsins héldu strákarnir mikilli yfirvegun og náðu mest sex marka forystu skömmu fyrir leikslok. Lokatölur urðu 25-22 fyrir Ísland og situr liðið nú í öðru sæti síns riðils með sex stig eftir fjóra leiki. Sterk vörn og frábær markvarsla lögðu grunninn að sigrinum í dag en Viktor Gísli Hallgrímsson og Bjarni Ófeigur Valdimarsson voru fremstir meðal jafningja. Viktor Gísli varði 18 skot og Bjarni Ófeigur skoraði 9 mörk. Næsti leikur íslenska liðsins er á mánudag gegn Þjóðverjum kl. 12:00 að íslenskum tíma og verður sýndur beint á SportTV.