U-21 árs landslið karla lék í kvöld vináttulandsleik gegn Frökkum í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði. Það er ekki oft sem yngri landslið Íslands spila á heimavelli og má segja að strákarnir okkar hafi nýtt tækifærið í kvöld og sýnt sparihliðarnar.

Íslenska liðið hóf leikinn af miklum krafti og komst í 5-0 eftir frábæra byrjun. Fyrri hálfleikurinn var nánast einstefna og höfðu strákarnir okkar 10 marka forystu þegar liðin gengu til búningsklefa, 17-7.

Í upphafi síðari hálfleiks hægðist mikið á leiknum og Frakkar minnkuðu muninn eftir því sem leið á hálfleikinn. Þrátt fyrir áhlaup frá Frökkum á lokamínútunum þá lönduðu strákarnir okkar góðum sigri, 28-24.

Markaskorarar Íslands:

Teitur Einarsson 8, Birgir Birgisson 3, Orri Þorkelsson 3, Sveinn Andri Sveinsson 3, Sigþór Gunnar Jónsson 3, Ásgeir Snær Jónsson 2, Sveinn Jóhannsson 1, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 1, Elliði Snær Viðarsson 1, Pétur Árni Hauksson 1, Sveinn José Rivera 1, Alexander Jón Másson 1.

Viktor Gísli Hallgrímsson varði 13 skot í leiknum.

Liðin mætast aftur í Schenker-höllinni á morgun (laugardag) kl. 16.00, aðgangur er ókeypis. Leikurinn verður sýndur á HaukarTV á youtube.