U-21 karla | 1 marks tap gegn Færeyingum

Strákarnir okkar mættu Færeyingum öðru sinni í Kaplakrika fyrr í dag en bæði liðin nýta þessa leiki til undirbúnings fyrir HM í Þýskalandi og Grikklandi en það hefst síðar í mánuðinum.

Það voru Færeyingar sem hófu leikinn af miklum krafti og eftir 10 mínútuna leik voru þeir komnir með 4 marka forystu, 8-4. Strákarnir okkar minnkuðu fljótlega muninn niður í 1 mark en tókst ekki að jafna, í lok hálfleiksins voru það frændur okkar frá Færeyjum sem náðu góðum kafla og fóru með 4 marka forystu inn í hálfleikinn, staðan 13-17 eftir kaflaskiptar 30 mínútur.

Strákarnir okkar komu inn í síðari hálfleikinn af miklum krafti og minnkuðu strax muninn niður í 2 mörk og tók þá við jafn og spennandi leikur þar sem munurinn á liðunum var 2-3 mörk. Á lokamínútunum minnkuðu strákarnir okkar muninn niður í 1 mark og fengu tækifæri til að jafna en allt kom fyrir ekki og Færeyingar unnu 1 marks sigur, 30-31.

Markaskorarar Íslands:
Einar Bragi Aðalsteinsson 8, Andri Finnsson 6, Jóhannes Berg Andrason 6, Þorsteinn Leó Gunnarsson 3, Símon Michael Guðjónsson 3, Stefán Orri Arnalds 2, Elvar Elí Hallgrímsson 1, Tryggvi Þórisson 1

Adam Thorstensen varði 8 skot og Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 5 skot.