U-20 karla | Tap gegn Slóvenum eftir vítakeppni

U-20 ára landslið karla lék í dag í krossspili við Slóveníu um hvort liðið léki um 9. – 10. sæti eða 11. – 12. sæti Evrópumeistaramóts U-20 ára landsliða karla í Porto. Íslenska liðið voru með frumkvæðið í fyrri hálfleik og náðu mest þriggja marka forustu. Í hálfleik leiddi Ísland með einu marki, 19 – 18.   

Síðari hálfleikur var spennandi frá fyrstu mínútu og mikil barátta í báðum liðum. Slóvenar náðu að jafna metin þegar 5 sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma og ljóst að úrslit leiksins myndu ráðast í vítakastkeppni. Þar höfðu Slóvenar betur og leika þeir því á morgun um 9. – 10. sæti mótsins en strákarnir okkar um 11. – 12. Sæti.

Andri Már Rúnarsson var valinn maður leiksins úr liði Íslands af mótshöldurum.

Mörk Íslands skoruðu Andri Már Rúnarsson 7, Andri Finnsson 6, Guðmundur Bragi Ástþórsson 6, Arnór Viðarsson 5, Benedikt Gunnar Óskarsson 4, Símon Michael Guðjónsson 4, Tryggvi Þórisson 2 og Ísak Gústafsson 1 mark.

Adam Thorstensen varði 9 skot, Jón Þórarinn Þorsteinsson 2 skot og Brynjar Vignir Sigurjónsson 1 skot.

Það lið sem endar í 11. sæti fær þáttökurétt á HM 20 ára landsliða á næsta ári sem haldið verður í Þýskalandi og Grikklandi. Mótherjar Íslands verða annað hvort Færeyjar eða Ítalía en liðið eigast við þessa stundina. Leikurinn hefst 16:00 og verður í beinni útsendingu á Víaplay.


Myndir Jónas Árnason