U 20 karla | Sterkur sigur á Færeyjum

Það var hart barist í fyrri vináttulandsleik Íslands og Færeyja hjá U 20 karla liðum þjóðanna. Færeyjingar byrjðu betur og höfðu fumkvæðið í byrjun leiks en þá tóku strákarnir góðan kafla og voru 10 – 7 yfir þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Strákarnir hertu betur tökin og juku á forskotið fyrir hálfleik þar sem staðan var 19 – 14 Íslandi í vil.

Strákarnir slökuðu svo ekkert á klónni í síðari hálfleik og gáfu Færeyingum engin tök á að komast inn í leikinn. Ísland endaði svo á að vinna afar sannfærandi sigur 34 – 25.

Mörk Íslands í leiknum gerðu: Elmar Erlingsson 9 mörk, Reynir Þór Stefánsson 4, Atli Steinn Arnarson 3, Össur Haraldsson 3, Gunnar Kári Bragason 3, Hinrik Hugi Heiðarsson 3, Kjartan Þór Júlíusson 3, Haukur Ingi Hauksson 2, Eiður Rafn Valsson 2, Birkir Snær Steinsson 1 og Ívar Bessi Viðarsson 1.

Í markinu stóð Ísak Steinsson meiri hlutann og varði 14 skot en Breki Hrafn Árnason bætti 3 við.

Liðin mætast síðan á ný á morgun í Safamýri kl. 16:00.