U-19 ára landslið kvenna náði sér ekki á strik og tapaði illa gegn Noregi í morgun.

Allt gekk á afturfótunum í upphafi leiks og komst norska liðið í 6-0 áður en stelpurnar okkar náðu að svara fyrir sig. Þetta góða forskot létu þær norsku ekki svo glatt af hendi og var staðan í hálfleik 7-13.

Íslenska liðið kom ágætlega stemmt inn í síðari hálfleik og náði að minnka muninn niður í 4 mörk, en eftir það voru stelpurnar mikið útaf og átti erfitt uppdráttar í sóknarleiknum. Seinustu 10 mínúturnar keyrðu þær norsku upp hraðann og skoruðu seinustu 5 mörk leiksins. Lokatölur í leiknum voru 18 – 28 fyrir Noreg.

Markaskorarar Íslands í leiknum:

Sandra Erlingsdóttir 7, Andrea Jacobsen 3, Lovísa Thompson 3, Ragnhildur Edda Þórðardóttir 2, Mariam Eradze 2, Ásdís Guðmundsdóttir 1.

Heiðrún Dís Magnúsdóttir varði 10 skot og Ástríður Glódís Gísladóttir varði 3 skot.

Sandra Erlingsdóttir var valinn best í íslenska liðinu að leik loknum en hún var áberandi í leik liðsins bæði í vörn og sókn.

Þá er Scandinavian Open Championship lokið og endaði íslenska liðið í 4. sæti. Stelpurnar geta verið ánægðar með tvo leiki af þremur í mótinu en andstæðingarnir í þetta skiptið voru af stærri gerðinni. Mótið fer þó í reynslubankann hjá liðinu og vonandi nýtist þetta í undankeppni HM sem fram fer næsta vor.