U-19 karla | Tap í kaflaskiptum leik

U-19 ára landslið karla lék í dag sinn fyrsta leik á EM í Krótatíu, andstæðingar dagsins voru Slóvenar en liðin hafa mæst nokkrum sinnum áður og alltaf verið um jafnar og spennadi viðureignir að ræða.

Slóvenar byrjuðu leikinn betur og á meðan íslenska liðinu gekk illa að skora létu þeir reka sig útaf í tíma og ótíma sem gerði liðinu erfitt fyrir. Heldur dróg í sundur með liðunum síðari hluta hálfleiksins, staðan í hálfleik 8-14 Slóvenum í vil.

Strákarnir okkar hófu síðari hálfleikinn af miklum krafti og skoruðu fyrstu tvö mörkin. Þrátt fyrir að Slóvenar hafi komið tilbaka var íslenska liðið ekki af baki dottið og með mikilli baráttu í vörninni og ágætum sóknarleik tókst strákunum að jafna leikinn, 18-18 þegar 12 mínútur voru eftir. Við tóku spennuþrungnar lokamínútur þar sem markvörður Slóvena reyndist íslenska liðinu erfiður. Að lokum voru það Slóvenar sem unnu fjögra marka sigur, 22-26.

Markaskorar Íslands:
Símon Michael Guðjónsson 4, Benedikt Gunnar Óskarsson 4, Kristófer Máni Jónasson 3, Arnór Ísak Haddsson 3, Andri Már Rúnarsson 3, Guðmundur Bragi Ástþórsson 1, Þorsteinn Leó Gunnarsson 1, Ísak Gústafsson 1, Jóhannes Berg Andrason 1 og Gauti Gunnarsson 1.

Adam Thorstensen varði 13 skot í íslenska markinu þar af voru 2 víti.

Á myndinni sem hér fylgir með sjáum við Adam Thorstensen (Stjarnan) og Andra Má Rúnarsson (Fram), báðir áttu þeir fínan leik í dag en Adam var valinn besti leikmaður íslenska liðsins af mótshöldurum.

Á morgun leikur íslenska liðið við Ítalíu og hefst leikurinn kl. 12.30 að íslenskum tíma. Við minnum á beina útsendingu á EHF TV.