U-19 ára landslið karla tapaði með 6 marka mun gegn Frökkum á HM í Norður-Makedóníu í dag.

Strákarnir okkar voru ekki á tánum í byrjun leiks og Frakkar komust í 4-0 en okkar menn réttu sig af og minnkuðu muninn fljótlega niður í eitt mark. Það voru þó Frakkar sem voru með forystuna allan hálfleikinn, staðan 10-16 þegar liðin gengur til búningsklefa.

Leikurinn jafnaðist í síðari hálfleik, liðin skoruðu sitt á hvað og munurinn hélst í 5-7 mörkum til leiksloka. Lokatölur 24-30 Frökkum í hag.

Markaskorarar Íslands:

Dagur Gautason 8, Eiríkur Guðni Þórarinsson 3, Einar Örn Sindrason 3, Arnór Snær Óskarsson 2, Guðjón Baldur Ómarsson 2, Tjörvi Týr Gíslason 2, Blær Hinriksson 2, Goði Ingvar Sveinsson 1, Hafsteinn Óli Ramos Rocha 1.

Svavar Ingi Sigmundsson varði 11 skot í leiknum.

Á morgun mætir íslenska liðið Spánverjum í leik um 7. sætið á mótinu. Leikurinn hefst kl. 8.30 að íslenskum tíma og verður hann auglýstur á miðlum HSÍ.