U-19 karla | Svekkjandi tap í naglbít

Strákarnir okkar mættu Svíum í fyrsta leik í milliriðli á EM í Króatíu fyrr í dag. Íslenska liðið þurfti sigur til að eiga möguleika á að komast í undanúrslit en tap eða jafntefli þýddi að liðið mynda leika um 5. – 8. sæti.

Svíarnir náðu frumkvæðinu strax í upphafi leiks, þó var varnarleikur íslenska liðsins til fyrirmyndar en sóknin hikandi og færanýtingin eftir því. Sænska liðið komst komst mest 4 mörkum yfir áður en strákarnir okkar tóku við sér og náðu minnka muninn í tvö mörk fyrir hálfleik, staðan 12-14 í hálfleik Svíum í vil.

Íslenska liðið hélt áfram að minnka muninn í síðari hálfleik og eftir um 45 mínútna leik var jafnt 18-18. Með mikilli baráttu í vörn og útsjónarsemi í sókn tókst strákunum að komast einu marki yfir, 22-21 og áttu möguleika að bæta í forskotið. En allt kom fyrir ekki, Svíar voru sterkari á lokakaflanum og unnu að lokum 2 marka sigur, 27-29.

Markaskorarar Íslands:
Guðmundur Bragi Ástþórsson 9, Ísak Gústafsson 5, Þorsteinn Leó Gunnarsson 3, Arnór Ísak Haddsson 2, Símon Michael Guðjónsson 2, Benedikt Gunnar Óskarsson 2, Andri Már Rúnarsson 2, Kristófer Máni Jónasson 1 og Arnór Viðarsson 1.

Adam Thorstensen varði 7 skot og Brynjar Vignir Sigurjónsson varði 2 skot.

Þrátt fyrir tap verður að hrósa íslenska liðinu, strákarnir gáfu allt í leikinn og flesta aðra daga hefði uppskeran verið betri. Því miður var færanýtingin liðinu að falli, 5 víti fóru í súginn auk fjölda dauðafæra. Næst á dagskrá er leikur við Spánverja á morgun en hann hefst kl. 18.30 að íslenskum tíma. Því miður er ekki lengur möguleiki á að komast í undanúrslitin en strákarnir taka einn leik fyrir einu og ætla áfram að gera sitt allra besta í mótinu.