U-19 karla | Magnaður sigur gegn Egyptum

Sparkassen Cup hófst í Merzig í Þýskalandi í dag og léku strákarnir okkar sinn fyrsta leik síðdegis gegn Egyptum.

Það voru Egyptar sem byrjuðu betur og náðu fljótlega 4 marka forystu. Íslenska liðið gerði fjölmörg tæknimistök í fyrri hálfleik og eftir tæplega 20 mínútna leik var staðan 6-12 Egyptum í vil og strákarnir okkar í miklum vandræðum með stóra og sterka Egypta. Lokamínútur fyrri hálfleiks gengu mun betur og í hálfleik var munurinn kominn niður í 3 mörk, 12-15.

Í síðari hálfleik skipti íslenska liðið í 5-1 vörn og þá snerist leikurinn, Egyptar lentu í miklum vandræðum með sinn sóknarleik og strákarnir okkar röðuðu inn mörkum úr hraðupphlaupum. Eftir þetta jafnaðist leikurinn en íslenska liðið hélt frumkvæðinu og hafði 1-2 marka forystu. Á lokamínútunum var hinsvegar alveg ljóst hvað sigurinn myndi lenda, strákarnir léku við hvurn sinn fingur og skiluðu að lokum 5 marka sigur, 32-27.

Markaskorarar Íslands:
Kjartan Þór Júlíusson 8, Sigurður Snær Sigurjónsson 6, Reynir Þór Stefánsson 5, Skarphéðinn Ívar Einarsson 4, Eiður Rafn Valsson 4, Birkir Snær Steinsson 2, Elmar Erlingsson 1, Sæþór Atlason 1, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 1.

Breki Hrafn Árnason og Ísak Steinsson vörðu 7 skot hvor í markinu.

Það verður að hrósa strákunum fyrir frábæra endurkomu í leiknum, egypska liðið er sterkt en strákarnir sýndu úr hverju þeir eru gerðir. Frammistaðan lofar góðu fyrir framhaldið en liðið vakti mikla athygli fyrir framan fulla höll hér í Merzig.

Á morgun spilar liðið tvo leiki, fyrst gegn Sviss kl.13.00 og gegn Saar kl. 18.20 (íslenskur tími). Við höldum áfram að fjalla um leiki U-19 ára landsliðsins á miðlum HSÍ.