Strákarnir okkar gerðu jafntefli við Ísrael, 26-26 í fyrsta leik í Nations Cup í Lubeck í Þýskalandi.

Jafnt var á flestum tölum í fyrri hálfleik, liðin skiptust á að hafa forystu en íslensku strákarnir áttu í vandræðum varnarlega. Mikið var rekið útaf í fyrri hálfleik og fékk einn leikmanna Ísrael rautt spjald eftir aðeins 27 sekúndna leik. Íslenska liðið hafði eins marks forystu í hálfleik, 16-15

Í síðari hálfleik fór varnarleikur íslenska liðsins að ganga betur og komst íslenska liðið 3 mörkum yfir, 23-20 þegar 12 mínútur voru eftir og áttu nokkur tækifæri til auka muninn í 4 mörk. En allt kom fyrir ekki og þá hrökk allt í baklás, ísraelska liðið lék við hvurn sinn fingur og komust einu marki yfir þegar stutt var til leiksloka. Strákarnir okkar jöfnuðu og þrátt fyrir að bæði lið fengu tækifæri til að skora gekk það ekki, lokatölur 26-26.

Markaskorarar Íslands:

Arnór Snær Óskarsson 9, Tumi Steinn Rúnarsson 4, Dagur Gautason 3, Stiven Tobar Valencia 3, Guðjón Baldur Ómarsson 3, Eiríkur Guðni Þórarinsson 2, Einar Örn Sindrason 1, Ólafur Brim Stefánsson 1.

Svavar Sigmundsson varði 8 skot í íslenska markinu.

Íslenska liðið leikur næst á laugardaginn gegn heimamönnum í Þýskalandi, leikurinn hefst kl. 16.30 að íslenskum tíma.