U-19 ára landslið karla vann sannfærandi sigur á Serbíu í kvöld.

Íslenska liðið hóf leikinn af miklum krafti og tók strax frumkvæðið í leiknum, vörnin var sterk og sóknarleikurinn gekk smurt. Í hálfleik hafði íslenska liðið 4 marka forystu, 13-9.

Í síðari hálfleik settu strákarnir okkar í næsta gír og náðu mest 10 marka forystu, 24-14 þegar 15 mínútur lifðu leiks. Leikurinn róaðist töluvert á lokamínútunum og Serbarnir minnkuðu muninn þrátt fyrir að hafa aldrei ógnað íslenska liðinu. Lokatölur 26-22 fyrir Ísland.

Markaskorarar Íslands:

Stiven Tobar Valencia 6, Dagur Gautason 5, Eiríkur Guðni Þórarinsson 4, Tumi Steinn Rúnarsson 3, Haukur Þrastarson 2, Guðjón Baldur Ómarsson 2, Tjörvi Týr Gíslason 2, Arnór Snær Óskarsson 1 og Jón Bald Freysson 1.

Sigurður Dan Óskarsson varði 14 bolta í markinu.

Á morgun er hvíldardagur hjá íslenska liðinu en á mánudaginn verða Þjóðverjar andstæðingar íslenska liðsins, sá leikur hefst kl. 12.30 að íslenskum tíma og verður útsending frá leiknum auglýst á miðlum HSÍ á mánudaginn.