U-19 karla | 8. sæti eftir tveggja marka tap gegn Svíum

Ísland og Svíþjóð mættust í leik um 7. sætið á EM í Króatíu í morgun. Liðin höfðu áður mæst í milliriðlinum þar sem Svíar höfðu sigur en strákarnir okkar hugðu á hefndir.

Leikurinn byrjaði ekki vel hjá íslenska liðinu og fljótlega komust Svíar 6 mörkum yfir. Strákarnir okkar voru þó ekki af baki dottnir, vörnin þéttist eftir því sem leið á leikinn og smá saman tókst að minnka muninn. Jafnt var í hálfleik, staðan 11-11 þegar liðin gengu til búningsklefa.

Íslenska liðið hafði yfirhöndina framan af síðari hálfleik en munurinn varð þó aldrei meiri en 2 mörk, síðust 10-12 mínúturnar snerist leikurinn aftur og nú Svíum í hag. Þeir skoruðu 4 mörk í röð og þann mun náði íslenska liðið aldrei að brúa. Lokatölur í Varazdin 24-26 Svíum í hag.

Markaskorarar Íslands:
Benedikt Gunnar Óskarsson 7, Símon Michael Guðjónsson 4, Jóhannes Berg Andrason 3, Andri Már Rúnarsson 3, Gauti Gunnarsson 3, Þorsteinn Leó Gunnarsson 2 og Andri Finnsson 2.

Adam Thorstensen varði 12/2 skot í íslenska markinu.

Benedikt Gunnar Óskarsson var valinn besti leikmaður íslenska liðsins af mótshöldurum.

Það er því ljóst að íslenska liðið endar í 8. sæti á EM en það tryggir bæði U2002 og U2004 liðunum sæti á EM á næsta ári. Með smá heppni hefði liðið eflaust geta náð lengra í mótinu en nú þurfa strákarnir að leggja hart að sér með sínum félagsliðum og þá er aldrei að vita hvað gerist í næstu mótum með landsliðinu. Nú bíður drengjanna heimferð frá Króatíu, en liðið ferðast á morgun (mánudag).