U-18 kvenna | Stelpurnar okkar á HM í sumar

Skrifstofa IHF staðfesti við HSÍ í dag að U-18 ára landslið kvenna hefur fengið sæti á HM í sumar en íslenska liðið var varaþjóð í Evrópu eftir góðan árangur á mótum á síðastliðnu ári.

Heimsmeistaramót U-18 ára landsliða kvenna fer fram í Norður-Makedóníu 30. júlí – 10. ágúst, leikið verður í Jane Sandanski og Boris Trajkovski höllunum í Skopje. Dregið verður í riðla í byrjun júní og má reikna með að leikjaplan verði gefið út fljótlega eftir það.

Ágúst Jóhannsson og Árni Stefán Guðjónsson þjálfarar liðsins munu tilkynna leikmannahóp fyrir mótið 7. júní (16 leikmenn og 4 til vara). Æfingar hefjast 17. júlí og reiknað er með að liðið haldi af stað til Makedóníu fimmtudaginn 28. júlí.

Frekari fréttir af riðli og leikjaplani birtast á miðlum HSÍ þegar upplýsingar berast.