U-18 kvenna | Frábær sigur gegn Slóveníu

U18-landslið kvenna fór vel af stað í umspilsmótinu fyrir Evrópumót U18 kvenna sem fram fer í Serbíu. Liðið vann sannkallaðan baráttusigur á Slóveníu fyrr í dag, 24-21 í fyrsta leik mótsins.

Leikurinn var járnum allan fyrri hálfleikinn, en í stöðunni 7-5 fyrir Slóveníu tók íslenska liðið leikhlé og náði í framhaldinu að jafna metin fyrir hálfleik þar sem staðan var 9-9.
Í síðari hálfleik náðu stelpurnar okkar hægt og rólega yfirhöndinni og um miðjan síðari hálfleik var staðan orðin 17-14 fyrir Ísland. Sá munur hélst nokkuð vel út leikinn og lokatölur urðu 24-21 fyrir Ísland.

Lilja Ágústsdóttir var markahæst í íslenska liðinu með 8 mörk og í markinu vörðu þær Ingunn María Brynjarsdóttir og Ísabella Schöbel Björnsdóttir 7 bolta.

Á morgun bíður íslenska liðsins næsta verkefni, þegar liðið mætir Slóvakíu kl. 14.30 að íslenskum tíma. Leikurinn verður sýndur á www.ehftv.com.

Markaskor:
Lilja Ágústsdóttir – 8 mörk
Tinna Sigurrós Traustadóttir – 4 mörk
Inga Dís Jóhannsdóttir – 4 mörk
Embla Steindórsdóttir – 3 mörk
Elín Klara Þorkelsdóttir – 2 mörk
Katrín Anna Ásmundsdóttir – 2 mörk
Thelma Melsted Björgvinsdóttir – 1 mark
Ingunn María Brynjarsdóttir – 4 varin skot
Ísabella Schöbel Björnsdóttir – 3 varin skot