U-18 karla | Tap gegn Þjóðverjum

U-18 ára landslið karla lék seinasta leik sinn í riðlakeppni EM gegn Þjóðverjum fyrr í dag. Fyrir leikinn var ljóst að sigurvegarar dagsins myndu komast í milliriðil en tapliðið leika um 9. – 16. sæti.

Mikill hraði var í leiknum og eftir að jafnt var á flestum tölum í upphafi leiks voru það strákarnir okkar sem náðu góðum kafla og komust 4 mörkum yfir, 13 – 9 eftir 15 mínútna leik. Eftir því sem leið á hálfleikinn minnkuðu Þjóðverjar forskotið og eftir 30 mínútna leik var jafnt, 18-18.

Áfram var jafn á með liðunum í upphafi síðari hálfleiks en smám saman náðu Þjóðverjar betri tökum á leiknum á náðu 2-3 marka forystu þegar 45 mínútur voru liðnar. Íslenska liðið gerði allt sem í þeirra valdi stóð til að minnka muninn á lokakaflanum en allt kom fyrir ekki. Að lokum voru það Þjóðverjar sem unnu 4 marka sigur 35-31.

Markaskorarar Íslands:
Elmar Erlingsson 9, Kjartan Þór Júlíusson 5, Atli Steinn Arnarson 4, Skarphéðinn Ívar Einarsson 4, Andri Fannar Elísson 3, Andrés Marel Sigurðsson 3, Hans Jörgen Ólafsson 1, Sigurður Snær Sigurjónsson 1, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 1.

Það verður að hrósa strákunum fyrir frammistöðuna í dag, menn lögðu allt í leikinn en það var fyrst og fremst markvörður Þjóðverja sem var munurinn á liðunum. Nú tekur við keppni um 9. – 16. sæti en þar mætir íslenska liðið Ítölum og heimamönnum frá Svartfjallalandi. Leiktímar í næstu leikjum liggja fyrir í kvöld.