í dag hóf íslenska u-18 ára landsliðið leik á Evrópumótinu í Króatíu. Fyrsti leikurinn var gegn heimamönnum og þrátt fyrir örlítið stress hjá íslensku strákunum í fyrri hálfleik þá hristu þeir það af sér í þeim seinni og létu Króata hafa fyrir hlutunum.

Strákarnir virkuðu örlítið hræddir í byrjun og gáfu heimamönnum ágætis forskot, mest 7 mörk. En eftir því sem leið á hálfleikinn komust þeir betur inn í leikinn og minnkuðu muninn í 4 mörk rétt fyrir leikhlé. Staðan í hálfleik 18-14 fyrir Króata.

Í seinni hálfleik héldu okkar strákar áfram að minnka muninn og áttu þeir tvisvar möguleika að minnka muninn í 1 mark, en seinustu 10 mínútur leiksins dró heldur í sundur með liðunum á nýjan leik. Lokatölur 34-29 fyrir Króatíu.

Mörk Íslands í leiknum:

Teitur Einarsson 5, Gísli Kristjánsson 5, Sveinn Sveinsson 4, Alexander Másson 3, Örn Östenberg 3, Kristófer Sigurðsson 3, Ágúst Grétarsson 2, Elliði Viðarsson 2, Sveinn Jóhannsson 1 og Bjarni Valdimarsson 1.

Andri Scheving varði 8 skot og Viktor Gísli Hallgrímsson varði 9 skot.

Viðtöl, myndir og fleira síðar í kvöld.

Á morgun verður leikið við Svía kl. 15.30, fylgist með umfjöllun á hsi.is og samskiptamiðlum sambandsins.