U-18 karla | Tap gegn Færeyjum

U-18 ára landslið karla lék í dag fyrri æfingarleik sinn gegn heimamönnum í Færeyjum.Leikirnir eru liður í undirbúningi fyrir Evrópumót U-18 árs landsliða sem hefst 4. ágúst í Svartfjallalandi.

Leikurinn í dag einkenndist af miklum hraða þar sem litið var um varnir. Jafnræði var með liðunum í byrjun leiks og skiptust liðin á að ná forskoti. Um miðjan fyrri hálfleik náðu heimamenn undirtökunum og höfðu forystu í hálfleik 21-16.

Seinni hálfleikurinn spilaðist eins og sá fyrri þar sem íslenska liðið átti í miklum vandræðum í vörninni. Færeyingar héldu þar af leiðandi forskoti sínu en íslenska liðið náði minnst að minnka muninn í 4 mörk. Leikurinn endaði svo með öruggum sigri Færeyja 39 – 33.

Mörk Íslands skoruðu: Elmar Erlingsson 10, Skarphéðinn Ívar Einarsson 5, Kjartan Þór Júlíusson 4, Andrés Marel Sigurðsson 3, Birkir Snær Steinsson 3, Sigurður Snær Sigurjónsson 2, Sæþór Atlason 2, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 1, Atli Steinn Arnarson 1, Viðar Ernir Reimarsson 1 og Hinrik Hugi Heiðarsson 1.Í markinu stóð Ísak Steinsson og varði 8 skot.

Liðin mætast svo aftur á morgun kl. 14:00 að íslenskum tíma í Hoyvíkshöllinni. Leiknum verður streymt beint á vef færeyska handknattleikssambandsins á slóðinni https://live.hsf.fo. Aðgengi að leiknum kostar 39 DK kr.