U-18 ára landslið karla tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum EM með frábærum 4 marka sigri gegn Króötum.

Það voru Króatar sem fóru betur af stað og skoruðu 2 mörk á fyrstu mínútunni en eftir það náðu strákarnir okkar góðum tökum á leiknum og voru 4 mörkum yfir, 11-7 þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik. Þó að Króatar hafi náð að klóra í bakkann á lokamínútum fyrri hálfleiks þá hafði íslenska liðið eins marks forystu í hálfleik, 13-12.

Íslensku strákarnir náðu strax yfirhöndinni í síðari hálfleik og leiddu leikinn með 2-4 mörkum allt til leiksloka. Varnarleikur íslenska liðsins var til fyrirmyndar í dag og þá átti Haukur Þrastarson enn einn stórleikinn í sókninni, skoraði 10 mörk og var besti maður íslenska liðsins í leiknum í dag af mótshöldurum. Lokatölur í leiknum voru 30-26 strákunum okkar í hag.

Þetta þýðir að íslenska liðið mætir Svíum í úrslitaleik á sunnudaginn. Liðin mættust í riðlakeppninni þar sem íslenska liðið hafði 5 marka sigur en það er hætt við því að Svíarnir selji sig dýrt á sunnudaginn, þeir hafa spilað frábæran bolta í undanförnum leikjum og bætt sig mikið frá tapleiknum gegn Íslandi. Leikurinn á sunnudag hefst kl. 15.30 að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu á ehfTV.com

Markaskorarar Íslands í kvöld:

Haukur Þrastarson 10, Dagur Gautason 6, Stiven Tobar Valencia 4, Arnór Snær Óskarsson 3, Tumi Steinn Rúnarsson 3, Einar Örn Sindrason 3, Þorleifur Rafn Aðalsteinsson 1.

Viktor Gísli Hallgrímsson varði 14 skot í leiknum.