U-18 karla | Silfur á Sparkassen Cup

U-18 ára landslið karla lék tvo leiki á Sparkassen Cup í dag, fyrst í undanúrslitum gegn Slóvenum og svo í kvöld í úrslitum gegn Þjóðverjum.

Í fyrri leiknum gegn Slóvenum var jafnt á með liðunum fyrstu mínúturnar en eftir því sem leið á leikinn náðu Slóvenar yfirhöndinni og leiddu með 3 mörkum í hálfleik, 12-15. Framan af síðari hálfleik hélst þessi munur á liðunum en þegar 15 mín voru til leiksloka tók við góður kafli hjá strákunum okkar sem smám saman á minnkuðu muninn og eftir æsispennandi lokakafla var jafnt á með liðunum þegar flautað var til leiksloka og því var gripið til vítakeppni. Þar hafði íslenska liðið betur, eftir að bæði liðin höfðu skorað úr 7 fyrstu vítunum nýttu strákarnir okkar 8 vítið en Jens Sigurðarson varði víti Slóvena. Þar með var sæti í úrslitunum tryggt, lokatölur 33-32.

Markaskorar Íslands:
Ágúst Guðmundsson 11, Stefán Magni Hjartarson 5, Dagur Árni Heimisson 5, Jens Bragi Bergþórsson 4, Antoine Óskar Pantano 3, Harri Halldórsson 2, Garðar Ingi Sindrason 2 og Hugi Elmarsson 1.

Óskar Þórarinsson varði 9 skot og Jens Sigurðarson varði 4 skot.

Í úrslitaleiknum mættu strákarnir okkar Þjóðverjum. Eftir jafnar upphafsmínutur náðu strákarnir okkar tveggja marka forystu um miðjan hálfleikinn en þá kom góður leikkafli hjá þýska liðinu sem náði 4 marka forystu, staðan 16-20 í hálfleik. Íslenska liðið hélt í horfinu fyrstu mínútur síðari hálfleiks en eftir því sem leið á leikinn byggðu Þjóðverjar upp meira forskot og unnu að lokum með 8 marka mun, 26-34.

Markaskorar Íslands:
Ágúst Guðmundsson 11, Stefán Magni Hjartarson 6, Jens Bragi Bergþórsson 3, Antoine Óskar Pantano 2, Dagur Árni Heimisson 2, Harri Halldórsson 1 og Marel Baldvinsson 1.

Óskar Þórarinsson varði 10 skot í leiknum en Jens Sigurðarson gat ekki tekið þátt í leiknum vegna meiðsla.

2. sæti verður að teljast viðunandi árangur hjá íslenska liðinu en næsta sumar tekur liðið þátt í Evrópumeistaramóti 18 ára liða. Liðið þróaðist og varð betra með hverjum leiknum hér í Merzig og að sjálfsögðu er það frábær reynsla fyrir hvern leikmann að spila úrslitaleik fyrir framan 1000 manns í Þýskalandi. Það verður gaman að fylgjast með liðinu í næstu verkefnum, til hamingju með árangurinn.