U-18 ára landsliðið vann 7 marka sigur gegn Saar í fyrsta leik á Sparkassen Cup í Þýskalandi.

Jafnt var á með liðunum í fyrri hálfleik, mikil spenna og frábært andrúmsloft í húsinu. Íslenska liðið var fyrir áfalli á 12. mínútu þegar Tjörvi Týr Gíslason fékk beint rautt spjald. Strákarnir okkar létu þetta þó ekki slá sig útaf laginu og höfðu eins marks forystu í hálfleik, 15-14.

Í upphafi síðari hálfleiks náðu íslensku strákarnir fljótlega 3 marka forystu og eftir það runnu öll vötn til Dýrafjarðar. Góð vörn og hraðaupphlaup einkenndu seinni hálfleikinn og þá var eftirleikurinn auðveldur. Að lokum unnu strákarnir okkar góðan 7 marka sigur, 31-24.

Markarskorarar Íslands í leiknum:

Haukur Þrastarson 11, Dagur Gautason 10 (5 úr vítum), Arnór Snær Óskarsson 4, Arnar Máni Rúnarsson 3, Stiven Tobar Valencia 1, Eiríkur Þórarinsson 1 og Þorleifur Rafn Aðalsteinsson 1.

Viktor Gísli Hallgrímsson varði 10 skot í leiknum og Haukur Brynjarsson varði 3 (þar af 2 víti).

Á morgun mæta strákarnir Pólverjum kl. 11.40 og Hollendingum kl. 17.00. Leikskýrslur frá þessum leikjum birtast á heimasíðu HSÍ annað kvöld.