U-18 ára landslið karla tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum EM með eins marks sigri á Þjóðverjum 23-22 í miklum spennuleik. 

Jafnræði var á með liðunum í byrjun leiks en eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn náðu strákarnir okkar góðum tökum á leiknum og leiddu í hálfleik, 13-10.

Sama var uppá teningnum í síðari hálfleik og smám saman náði íslenska liðið góðri forystu, mest fór munurinn í 5 mörk (22-17) þegar 7 mínútur lifðu leiks. En þá fór allt í baklás, íslenska liðið fékk brottvísanir og Þjóðverjar gengu á lagið. 45 sekúndum fyrir leikslok minnkuðu Þjóðverjar muninn niður í 1 mark og vinna svo boltann skömmu síðar aftur. En íslenska vörnin var frábær eins og í raun allan leikinn og niðurstaðan var eins marks sigur, 23-22.

Þetta þýðir að íslenska liðið er búið að vinna sigur í riðlinum og tryggja sér þar með sæti í undanúrslitum þrátt fyrir að eiga leik eftir gegn Spánverjum á morgun. Leikurinn á morgun hefst kl. 18.30 og er að sjálfsögðu í beinni útsendingu á ehfTV.is

Markaskorarar Íslands:

Haukur Þrastarson 9, Tumi Steinn Rúnarsson 4, Dagur Gautason 3, Eiríkur Guðni Þórarinsson 3, Arnór Snær Óskarsson 2, Einar Örn Sindrason 1, Stiven Tobar Valencia 1.

Viktor Gísli Hallgrímsson varði 16 skot í leiknum, þar af 2 víti.