U-18 ára landslið karla tryggði sér í dag sigur á Sparkassen Cup með sigri á Þjóðverjum í æsispennandi úrslitaleik.

En til þessa að komast í úrslitaleikinn þurftu strákarnir að vinna Ítalíu í undanúrslitum. Sá leikur reyndist þó frekar þægilegur þar sem íslenska liðið náði mest 13 marka forystu strax í fyrri hálfleik. Þegar yfir lauk vann íslenska liðið frábæran 16 marka sigur, 33-17 (17-6).

Markaskorarar Ísland gegn Ítalíu:

Haukar Þrastarson 6 (þar af 1 úr víti), Viktor Andri Jónsson 4, Stiven Tobar Valencia 3, Þorleifur Rafn Aðalsteinsson 3, Arnór Snær Óskarsson 3, Tumi Steinn Rúnarsson 3, Dagur Gautason 3, Einar Örn Sindrason 2, Daníel Freyr Rúnarsson 2, Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha 1, Goði Ingvar Sveinsson 1, Arnar Máni Rúnarsson 1, Tjörvi Týr Gíslason 1.

Viktor Gísli Hallgrímsson varði 15 skot og Haukur Brynjarsson 4.

——–



Úrslitaleikurinn var háspenna lífshætta frá fyrstu sekúndu og ekki fyrir hjartveika. Lítið var skorað fyrstu mínúturnar en þýska liðið komst tveimur mörkum yfir eftir um 10 mín leik. Þá tóku íslensku strákarnir við sér jöfnuðu og komust yfir, en allt kom fyrir ekki og þeir þýsku komu strax tilbaka. Staðan í hálfleik 10-11 fyrir þýska liðið.

Í síðari hálfleik náðu Þjóðverjar mest þriggja marka forystu 12-15, en strákarnir okkar voru hvergi nærri hætti, jöfnuðu leikinn og komust yfir 20-17. Lokamínúturnar voru spennuþrungnar, íslenska liðið var í forystu en þeir þýsku sóttu hart að okkar mönnum og minnkuðu muninn niður í eitt mark á lokamínútunni. En allt kom fyrir ekki hjá Þjóðverjunum og strákarnir okkar höfðu sigur að lokum, 21-20.

Varnarleikur og markvarsla íslenska liðsins voru til fyrirmyndar í leiknum en lokamínúturnar voru magnaðar. Liðin misnotuðu 3 vítaköst á seinustu 90 sekúndunum, íslenska liðið eitt en það þýska tvö.

Þetta er fyrsti sigur Íslands á Sparkassen Cup, en okkar landslið hafa tekið þátt í mótinu síðan 1995 eða í rúm 20 ár. Liðinu var fagnað bæði af áhorfendum í Merzig og mótshöldurum sem sögðu í leikslok að loksins hefði verið komið að íslenska liðinu að taka við gullverðlaununum.

Markaskorarar Íslands gegn Þýskalandi:

Dagur Gautason 8 (þar af 2 úr vítum), Haukur Þrastarson 7 (þar af 1 úr víti), Stiven Tobar Valencia 2, Tumi Steinn Rúnarsson 2, Arnór Snær Óskarsson 1 og Tjörvi Týr Gíslason 1.

Viktor Gísli Hallgrímsson varði 17 skot í leiknum.