U-18 ára landslið karla gerði jafntefli við Ísrael í lokaleik sínum á Nations Cup í Lubeck í Þýskalandi í dag.

Lítið var um varnir framan af leik og skoruðu bæði liðin af vild í fyrri hálfleik. Íslenska liðið náði 3 marka forystu þegar skammt var til hálfleiks en á lokamínútunum gekk allt á afturfótunum og Ísrael náði forystunni í blálokin, hálfleikstölur 17-18.

Í síðari hálfleik gekk betur að binda saman vörnina en á sama tíma hikstaði sóknin. Íslenska liðið hafði frumkvæðið allt þar til 5 mínútur voru til leiksloka en á lokakaflanum var ísraelska liðið sterkari og vann að lokum 28-29.

Starfsmenn íslenska liðsins voru þó ekki alveg sáttir með talningu marka í leiknum, höfðu gert athugasemd við það á meðan leik stóð og gerðu það aftur að leik loknum. Kom þá í ljós að skv skýrslu ritara hafði Ísrael aðeins skorað 28 mörk og var því niðurstaðan að leikurinn hefði endað með jafntefli, 28-28.

Markaskorarar Íslands:

Arnór Snær Óskarsson 7, Þorleifur Rafn Aðalsteinsson 4, Dagur Gautason 4, Einar Örn Sindrason 3, Goði Ingvar Sveinsson 2, Stiven Tobar Valencia 2, Hafsteinn Óli Ramos Rocha 2, Haukur Þrastarson 2, Arnar Máni Rúnarsson 1, Viktor Andri Jónsson 1.