U-18 karla | Háspenna í Podgorica

U-18 ára landslið karla lék sinn fyrsta leik í milliriðli um 9. – 16. sæti á EM í Svartfjallalandi í dag. Andstæðingarnir voru heimamenn og er óhætt að segja að Svartfellingar hafi látið okkar menn hafa fyrir hlutunum í dag.

Íslensku strákarnir byrjuðu leikinn á hælunum og lentu 2-8 undir eftir 10 mínútur en þá var ákveðið að skipta í 5-1 vörn sem smám saman hægði á heimamönnum sem þó náðu aftur 6 marka forystu í stöðunni 7-13. En þá sögðu strákarnir okkar hingað og ekki lengra og náðu góðri rispu fyrir lok fyrri hálfleiks. Staðan 15-16 fyrir Svartfjallaland þegar liðin gengu til búningsklefa.

Snemma í síðari hálfleik náði íslenska liðið 2 marka forystu og leit út fyrir að allt væri í blóma en þá kom bakslag í sóknarleikinn og heimamenn komust aftur 2 mörkum yfir. Munurinn var 1-2 mörk allt þar til 3 mínútur voru til leiksloka en þá skoruðu strákarnir okkar þrjú mörk í röð, það seinasta þegar 10 sekúndur voru til leiksloka og tryggðu sætan sigur.

Markaskorarar Íslands:
Viðar Ernir Reimarsson 6, Kjartan Þór Júlíusson 6, Atli Steinn Arnarson 5, Skarphéðinn Ívar Einarsson 3, Sæþór Atlason 3, Andri Fannar Elísson 2, Hinrik Hugi Heiðarsson 2, Sigurður Snær Sigurjónsson 1, Elmar Erlingsson 1 og Hans Jörgen Ólafsson 1.

Ísak Steinsson varði 6 skot og Breki Hrafn Árnason varði 1.

Með þessum sigri tryggðu strákarnir sér efsta sætið í milliriðli og er því ljóst að þeir leika um 9. – 12. sæti í mótinu þrátt fyrir að einn leikur sé eftir í milliriðlinum. Stóru fréttirnar er þær að þessi sigur tryggir sæti á næstu tveimur stórmótum, HM 19 ára landsliða á næsta ári og EM 20 ára landsliða eftir 2 ár.

Næsti leikur íslenska liðsins er gegn Ítölum á morgun kl. 12.00 að íslenskum tíma.