U-18 karla | Frábær sigur í fyrsta leik

U-18 ára landslið karla hóf leik á EM í Podgoricia í Svartfjallalandi í dag. Andstæðingar dagsins voru Pólverjar og er óhætt að segja að strákarnir okkar hafi sýnt á sér sparihliðarnar.

Íslenska liðið hóf leikinn af krafti og strax eftir 10 mínútur, eftir það jafnaðist leikurinn en á seinustu 10 mínútum síðari hálfleik léku strákarnir á alls oddi. Þegar liðin gengu til búningsklefa munaði 9 mörkum, staðan 20-11.

Pólverjar minnkuðu muninn niður í 6 mörk eftir 10 mínútna leik í síðari hálfleik en þá sögðu strákarnir okkar hingað og ekki lengra. Mörkin komu á færibandi og sigurinn var afar sannfærandi, 38-25. Sóknarleikur íslenska liðsins var góður í leiknum en það var vörn og markvarsla sem lagði grunninn að sigrinum í dag.

Markaskorarar Íslands:
Elmar Erlingsson 7, Kjartan Þór Júlíusson 6, Andri Fannar Elísson 5, Atli Steinn Arnarsson 4, Skarphéðinn Ívar Einarsson 4, Andrés Marel Sigurðarson 3, Hinrik Hugi Heiðarsson 3, Viðar Ernir Reimarsson 2, Össur Haraldsson 2, Birkir Snær Steinsson 1, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 1.

Ísak Steinsson varði 14 skot í íslenska markinu þar af eitt víti.

Strákarnir okkar mæta Ungverjum á morgun kl. 14.00 að íslenskum tíma en Ungverjar gerðu sér lítið fyrir og unnu Þjóðverja fyrr í dag.